Guðjón Valur Sigurðsson sýndi gamalkunna takta í kvöld er hann skoraði 11 mörk gegn Brasilíu. Þar af skoraði hann sjö mörk úr hraðaupphlaupum.
"Fyrst og fremst var ánægjulegt að landa sigri í dag. Við vorum ekki að spila okkar besta leik og Brassarnir gerðu okkur mjög erfitt fyrir. Við erum að sjá það á þessu móti að getumunurinn á milli liða er alltaf að minnka," sagði Guðjón.
"Við náðum að rúlla mannskapnum ágætlega í dag og vonandi fer frídagurinn vel í menn," sagði Guðjón en hann var með mikið klór niður eftir bringunni.
"Ég var að þvælast fyrir í vörninni og það sýnir að ég á bara að vera niður í horni og reyna að hlaupa eins og hundur. Þetta er ekki þægilegt. Sturtan verður örugglega óþægileg."