Málefni Líbíu og mögulegt flugbann yfir landinu er aðalumræðuefni utanríkisráðherra G8 ríkjanna, sem funda nú í París. Bretar og Frakkar hafa hvatt til þess að bannið verði sett á sem fyrst og Arababandalagið hefur lýst yfir stuðningi við það. Uppreisnarmenn hafa kallað eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins.
Hersveitir Gaddafis einræðisherra landsins gerðu loftárásir á tvær lykilborgir uppreisnarmanna í gær. Borgirnar Ajdabiya og Brega eru mikilvægar fyrir þá, en jafnframt meginveikleiki þeirra þar sem mikið er af vegum á opnum svæðum sem auðvelt er að varpa sprengjum á. Gaddafi reynir nú að ná völdum í austurhluta landsins en uppreisnarmennirnir segjast hafa haldið völdum á þeim svæðum þar sem mestu olíuauðlindirnar eru.
Hersveitir Gaddafis hófu einnig í gær árás á bæinn Zwara, sem er rúmum hundrað kílómetrum frá höfuðborginni Trípólí.
Fundur utanríkisráðherranna átta fer fram í París, en Frakkar hafa viðurkennt uppreisnarmenn sem stjórnvald í landinu. Utanríkisráðherra Bretlands, William Hague, sagði í gær að það yrði martröð ef Gaddafi nær völdum á ný. Hann sagði einnig að ákvörðun um flugbann væri á næsta leiti. - þeb
