Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s, S&P, segir að endurrreisnarstarf í Japan eftir náttúruhamfarir og kjarnorkuslys fyrir rúmum mánuði verði svo kostnaðarsamt að það kunni að hafa neikvæð áhrif á ríkisreksturinn.
Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s, S&P, færði lánshæfishorfur Japans úr stöðugum í neikvæðar í gær. Fyrirtækið varaði við því að lánshæfiseinkunnir ríkisins kunni að verða lækkaðar verði ekki dregið úr halla á fjárlögum.
Í mati S&P er gert ráð fyrir að endurreisnarstarfið geti numið 3,7 prósentum af landsframleiðslu næstu tvö ár.
Bloomberg-fréttastofan bendir á að lánshæfishorfur Japans hafi ekki verið lækkaðar í níu ár, eða frá 2002. Þetta setji þrýsting á forsætisráðherrann Naoto Kan, sem hafi enn hvorki gert grein fyrir því hvernig endurreisnarstarfið verði fjármagnað né hvernig hann ætli að koma í veg fyrir neikvæð áhrif þess á fjárlög ríkisins. Bloomberg segir þingmenn úr öllum flokkum styðja að ríkið taki lán fyrir endurreisninni með skuldabréfasölu fremur en að skattar verði hækkaðir. - jab

