
Sagt er frá þessu framtaki WDCS í breska götublaðinu The Sun, þar sem fram kemur að fiskur frá HB Granda sé átta prósent af heildarmagni þess sem selt er á skyndibitastöðum.
Fyrir utan WDCS er fyrirtækið Sea Life hluti af átakinu, en Sea Life rekur ellefu sædýrasöfn.
The Sun hefur eftir Rob Hicks, líffræðingi hjá Sea Life, að takmarkið sé að höggva skörð í útflutning HB Granda og neyða íslensk stjórnvöld til þess að stöðva hvalveiðar.
Þrátt fyrir þetta nýjasta útspil hvalaverndunarsinna segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, í samtali við Frétablaðið að fyrirtækið hafi enn ekki orðið vart við áhrif vegna þess.
„Við höfum heyrt af þessum áróðri WDCS. Þeir hafa farið með miklum látum gegn okkur en við höfum ekki fengið neinar afpantanir.“
Eggert segir að viðbrögð hafi aðallega borist frá aðilum sem aldrei hafi átt viðskipti við HB Granda.
Hann bætir því við að það skjóti nokkuð skökku við að gera stórmál úr eignartengslunum við Hval hf. nú.
„Þetta hefur verið opinber vitneskja í yfir tuttugu ár en þeir setja þetta fram eins og þetta séu nýjar upplýsingar. Menn eru greinilega að setja þetta svona fram sem árásarpunkt til að þröngva sínum málstað upp á Íslendinga.“
Eggert segir að helstu viðskiptavinum HB Granda í Bretlandi hafi verið fullkunnugt um þessi mál í áraraðir og þeir hafi ekki kippt sér upp við þau hingað til.
Hann segist ekki áhyggjufullur varðandi framhaldið.
„Nei, en maður veit svo sem aldrei nema einhverjir staðir hætti að kaupa af okkar kúnna þarna úti. Þá þurfum við bara að finna okkur aðra markaði. Það er alltaf mikil eftirspurn eftir góðum fiski.“
thorgils@frettabladid.is