„Þetta eru bara fyrstu 25 árin,“ segir Viddi í Greifunum um nýja tvöfalda safnplötu frá hljómsveitinni. Tilefnið er 25 ára afmæli hennar. „Það er ekki spurning að við lítum stoltir um öxl og bjartsýnir fram á við.“
Á gripnum er safn fjörutíu bestu laga Greifanna auk mynddisks. Þar eru tvær nýjar útgáfur af lögunum Draumadrottningin og Strákarnir í götunni sem voru hljóðritaðar á afmælistónleikum á Húsavík í sumar. Felix Bergsson, fyrsti söngvari Greifanna, syngur í Draumadrottningunni og var þetta í fyrsta sinn í fimmtán ár sem hann söng með bandinu.
Á mynddiskinum eru nítján tónlistarmyndbönd og fjórir sjónvarpsþættir þar sem Greifarnir komu fram. Með safninu fylgir einnig bæklingur þar sem saga hljómsveitarinnar er rakin. - fb
Greifarnir líta stoltir um öxl
