Snorri Steinn Guðjónsson segir að leikmenn íslenska liðsins verði að rífa sig upp þó það gangi illa þessa dagana.
"Mér líður illa. Þetta voru vonbrigði og sérstaklega að tapa á þennan hátt. Þetta var hræðilegur fyrri hálfleikur þar sem stóð ekki steinn yfir steini í okkar leik," sagði Snorri Steinn.
"Við leystum allt mjög illa og töpuðum í fyrri hálfleik. Við gefumst aldrei upp og reyndum að bjarga andlitinu í síðari hálfleik.
"Þetta var samt of mikill munur til að hægt væri að ná þeim. Það verður erfitt að rífa sig upp. Við erum langt frá okkar besta í næstu leikjum.
"Það er nýr leikur á morgun og það er mikið í húfi. Hver og einn verður að rífa sig upp. Það er ekkert annað í stöðunni."