Innlent

PIP-málið á þingi - betra að láta IKEA sjá um innköllunina

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur sett á fót sérstakan starfshóp sem ætlað er að fara yfir sílikonmálið svokallaða og stöðu einkarekinna læknastofa almennt. Sílikonpúðar voru mikið ræddir á Alþingi í dag en Ólína Þorvarðardóttir var málshefjandi í sérstakri umræðu um ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.



Strax í kjölfar hennar fylgdi Álfheiður Ingadóttir og ræddi um viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.



Guðbjartur Hannesson var til andsvara í báðum umræðunum og segir hann brýnt hafi verið að ræða þetta mál. Hann sagði meðal annars makalaust að upp sé komin sú staða að læknar hafi nú leitað til persónuverndar um hvort þeim sé skylt að láta Landlækni í té ýmsar upplýsingar sem hann hefur óskað eftir. „Það er auðvitað Landlæknir sem hefur þetta eftirlitshlutverk," segir Guðbjartur.



Margir þingmenn ræddu málið á þingi í dag, þar á meðal Eygló Harðardóttir þingkona Framsóknarflokksins. Hún gagnrýndi það sleifarlag sem verið hefur á innköllun PIP-brjóstapúðanna eftir að upp komst um galla í þeim. Eygló benti á húsgagnaframleiðandann Ikea sem hefði margoft innkallað vörur frá sér án mikilla vandkvæða. Hún sagðist því spyrja sig hvort ekki hefði farið betur á því að láta Ikea sjá um innkallanir brjóstapúðanna, þeim hefði væntanlega farist það betur úr hendi en hinu opinbera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×