Golf

Styrktaræfingar skiluðu Rory McIlroy í efsta sæti heimslistans

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Rory McIlroy og Caroline Wozniacki, eru í fremstu röð í sinni íþrótt.
Rory McIlroy og Caroline Wozniacki, eru í fremstu röð í sinni íþrótt. Getty Images / Nordic Photos
Rory McIlroy er í efsta sæti heimslistans í golfi eftir sigurinn á Honda-meistaramótinu á PGA mótaröðinni s.l. sunnudag. McIlroy hefur lagt gríðarlega áherslu á líkamsræktina á undanförnum mánuðum og er hann ekki í vafa um að aukinn vöðvastyrkur hafi hjálpað við að komast í efsta sæti heimslistans.

Hinn 22 ára gamli Norður-Íri hefur komið með ferska vinda inn í atvinnugolfið og áhugi fjölmiðla á kylfingnum hefur stóraukist eftir að hann opinberaði samband sitt við eina bestu tenniskonu heims, Caroline Wozniacki frá Danmörku.

270 metra upphafshögg eru lítið mál fyrir Rory McIlroy
Þessi mynd var tekin af Rory McIlroy árið 2009 á opna breska meistaramótinu.Getty Images / Nordic Photos
McIlroy hefur fengið hrós úr ýmsum áttum fyrir golfhæfileika sína. Þar á meðal frá hinum eina sanna Jack Nicklaus, sem hefur sigrað á flestum stórmótum á ferlinum, alls 18. Nicklaus hefur sagt að enginn komist nálægt því að framkvæma golfsveifluna með jafn auðveldum hætti og McIlroy.

Á undanförnum 16 mánuðum hefur McIlroy verið í samstarfi með Steve McGregor sem er einn þekktasti styrktarþjálfari Bretlands. McGregor hafði áður gjörbreytt líkamsástandi enska kylfingsins Lee Westwood sem er í þriðja sæti heimslistans.

Í viðtali við bandaríska tímaritið Men's Health segir McIlroy að hann hafi öðlast meiri stöðugleika í golfsveiflunni eftir að hann hóf að taka á lóðunum af enn meiri krafti en áður.

McIlroy verður seint sagður „tröll að vexti" en hann er rétt um 72 kg. að þyngd og 1.80 m. á hæð. Hann leikur sér að því að slá 270 metra upphafshögg en aukin högglengd var ekki það sem McIlroy vildi fá út úr styrktaræfingunum.

„Ég veit að ég missi ekki jafnvægið þegar ég slæ 270 metra, áður fyrr þá fór ég nánast úr skónum þegar ég reyndi slíkt. Ég get reynt að slá fastar án þess að missa jafnvægið og ég þarf ekki að hafa mikið fyrir því að slá langt," segir McIlroy m.a. í viðtalinu.

Þriggja vikna hvíld fyrir Mastersmótið
Rory McIlroy fagnar sigrinum á Honda meistaramótinu. Gjörbreyting frá árinu 2009 á líkamsástandi kylfingsins eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.Getty Images / Nordic Photos
Styrktarþjálfun McIlroy hefur m.a. snúist um að fá betra jafnvægi í vöðvastyrkinn í efri hlutann en aðaláherslan var lögð á að styrkja neðri líkamshluta á borð við, mjaðmir, kálfa og lærvöðva þar sem krafturinn í golfsveiflunni verður til.

Líkamsfituhlutfallið hjá McIlroy hefur lækkað mikið á síðustu mánuðum og hann hefur einnig gjörbreytt matarvenjum sínum. Kjúklingur og broccoli grænmeti er aðalrétturinn hjá besta kylfing heims.

McIlroy mun taka þátt á Cadillac meistaramótinu sem fram fer á Doral vellinum og hefst á fimmtudaginn í þessari viku. Að því loknum mun hann taka sér þriggja vikna frí frá keppnisgolfi og mæta úthvíldur til leiks á fyrsta stórmót ársins – Mastersmótið á Augusta vellinum. Þar er verk að vinna fyrir McIlroy sem kastaði frá sér sigrinum með ömurlegum lokahring þar sem hann lék á 80 höggum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×