Rubens Barrichello mun aka í bandarísku mótaröðinni IndyCar í ár fyrir KV Racing liðið. Barrichello hefur reynsluekið undanfarnar vikur fyrir liðið og sannfært þá um hraða sinn og eldmóð.
Barrichello fékk samning sinn ekki endurnýjaðan hjá Williams liðinu í Formúlu 1 fyrir þetta tímabil en hann hefur ekið í Formúlunni allar götur síðan 1993. Rubens ók á ferli sínum í Formúlu 1 fyrir Jordan, Stewart, Ferrari, Honda, Brawn GP og nú síðast fyrir Williams.
Hinn ökumaður KV Racing er Brasilíumaðurinn Tony Kanaan sem einnig hefur gríðarlega reynslu í kappakstri. Sá hefur ekið í efstu deild bandarísks mótorsports síðan 1998. Barrichello tekur við af öðrum fyrrum Formúlu 1 ökumanni, Takuma Sato, sem hefur átt erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum, aldrei unnið mót og lent í mörgum óhöppum.
"Börnin mín sannfærðu eiginkonuna," sagði Rubens á blaðamannafundi KV Racing í dag þegar hann var spurður hvort hann hafði rætt við fjölskylduna um vistaskiptin og fengið leyfi til að keppa heilt tímabil.

