Tæknirisinn Google hefur sjósett afritunarlausn sína sem bíður notendum allt að 16 terabæta geymslupláss á veraldarvefnum.
Þessi nýja þjónusta er kölluð Google Drive og fer hún í beina samkeppni við Dropbox og SkyDrive.
Google Drive hefur fengið mikið lof fyrir notendaviðmót sitt. Sérfræðingar segja þó að fyrirtækið sé allt of seint að koma inn á þennan markað enda hafi svipaðar lausnir á borð við Dropbox verið til staðar síðustu ár.
Notendur geta geymt fimm gígabæt af tölvuskrám á Google Drive sér að kostnaðarlausu. Þegar gagnamagnið eykst geta notendur síðan fjárfest í meira geymsluplássi eða allt að 16 terabætum.
Þess má geta að 16 terabæta jafngilda 8 þúsund klukkutímum af myndböndum í háskerpu.
Google Drive verður fáanlegt á PC og Apple tölvur. Þá verða einnig í boði sérsniðin smáforrit fyrir spjaldtölvur og snjallsíma.

