LeBron James og félagar í Miami Heat eru aðeins einum sigri frá NBA-meistaratitlinum eftir magnaðan 104-98 sigur á Oklahoma í nótt. Miami búið að vinna þrjá leiki í röð og er 3-1 yfir í einvíginu.
Leikurinn í nótt var stórkostleg skemmtun. Oklahoma byrjaði leikinn með miklum látum og náði snemma 17 stiga forskoti. Miami vann sig svo inn í leikinn og allt í járnum í hálfleik.
Miami náði svo sífellt betri tökum á leiknum eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og stóðst svo áhlaup Oklahoma undir lokin.
LeBron átti stórkostlegan leik með 26 stig, 12 stoðsendingar og 9 fráköst. Mario Chalmers einnig með frábært framlag en hann skoraði 25 stig. James þurfti að hvíla í lokin þar sem hann var kominn með krampa og þá steig Chalmers upp.
Allt of margir leikmenn Oklahoma áttu slakan leik en Russell Westbrook hélt liðinu á floti í leiknum með 43 stig.
