Alfreð Finnbogason lét til sín taka í 3-0 sigri sænsku meistaranna í Helsingborg á TNS frá Wales í síðari viðureign liðanna í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu en leikið var í Svíþjóð.
Fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli en ef marka má tölfræðina úr leiknum í dag var sænska liðið sterkari aðilinn.
Heimamenn komust yfir strax á 8. mínútu og bættu við öðru marki eftir tæplega hálftíma leik.
Alfreð skaut alls sjö sinnum á markið í leiknum og í eitt skiptið small boltinn í rammanum á marki gestanna. Síðasta markið kom svo undir lok leiksins eftir að Alfreð hafði verið skipt af velli.
Helsingborg er því komið áfram í keppninni og mætir sigurvegaranum úr viðureign Śląsk Wrocław frá Póllandi og Budućnost Podgorica frá Svartfjallalandi í næstu umferð.

