Fótbolti

Inzaghi tekur við unglingaliði AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filippo Inzaghi skoraði sigurmark AC Milan í sínum síðasta leik.
Filippo Inzaghi skoraði sigurmark AC Milan í sínum síðasta leik. Mynd/AFP
Það verður ekkert að því að ítalski framherjinn Filippo Inzaghi semji við lið í Englandi því kappinn hefur samþykkt að taka við unglingaliði AC Milan. Inzaghi var einn af mörgum eldri leikmönnum AC Milan sem fengu ekki nýjan samning hjá félaginu.

Filippo Inzaghi var í framhaldinu orðaður við ensku liðin Reading og Watford á dögunum en þessi 38 ára gamli leikmaður ætlar að leggja skóna á hilluna og snúa sér að þjálfun. Hann mun taka við 17 ára liði AC Milan.

Inzaghi var búinn að leika með AC Milan frá árinu 2001 en hann kom til liðsins frá Juventus. Inzaghi skoraði alls 126 mörk í 300 leikjum með AC Milan í öllum keppnum.

Inzaghi er annar markahæsti leikmaður í sögu Evrópukeppna félagsliða á eftir Raul en þessi markheppni Ítali skoraði 70 Evrópumörk á sínum ferli.

Filippo Inzaghi endaði því feril sinn með AC Milan með því að skora sigurmark liðsins á móti Novara í ítölsku deildinni og fagnaði því vel með stuðningsmönnum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×