Juventus vann 3-2 sigur á AC Milan í kvöld í árlegum leik liðanna um Berlusconi-bikarinn en þetta er minningarleikur Silvio Berlusconi, eiganda AC Milan, um föður sinn Luigi Berlusconi og fer alltaf fram á San Siro í ágústmánuði. Nú var spilað um Berlusconi-bikarinn í 22. sinn en Juve var að vinna hann í tíunda skiptið.
Juventus tók ítalska meistaratitilinn af AC Milan á síðustu leiktíð og úrslit kvöldsins benda til þess að AC Milan eigi enn ekkert í Juve-liðið. Brotthvarf Zlatans Ibrahimovic og Thiago Silva í sumar er heldur ekki að gera AC Milan auðveldara fyrir.
Brasilíumaðurinn Robinho kom AC Milan reyndar yfir strax á 9. mínútu leiksins en Claudio Marchisio jafnaði aðeins þremur mínútum síðar og Chile-maðurinn Arturo Vidal kom Juve í 2-1 þremur mínútum fyrir hálfleik.
Alessandro Matri kom inn á sem varamaður í hálfleik og skoraði þriðja mark Juventus á 64. mínútu með skalla á fjærstöng eftir fyrirgjöf Emanuele Giaccherini. Matri er hugsanlega á leiðinni til AC Milan og ákvað því að fagna ekki markinu sínu.
Robinho minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 77. mínútu sem hann fiskaði sjálfur en þetta var annað mark Brasilíumannsins í leiknum. Fleiri urðu mörkin ekki og Juve vann Berlusconi-bikarinn í annað skiptið á þremur árum.
Juventus vann Berlusconi-bikarinn
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið




Beckham reiður: Sýnið smá virðingu
Fótbolti





Eiður Smári missir hvert metið á fætur öðru til ungra KR-inga
Íslenski boltinn

Fleiri fréttir
