Tónlist

Jimi Tenor í Norræna húsinu

Heldur tónleika í kvöld og ljósmyndasýningu á morgun.
Heldur tónleika í kvöld og ljósmyndasýningu á morgun.
Finnski tónlistarmaðurinn Jimi Tenor stendur fyrir tveimur mismunandi viðburðum í Norræna húsinu um helgina.

Tenor heldur tónleika í Norræna húsinu í kvöld en hann er meðal þekktustu tónlistarmanna Finna og frægur fyrir óhefðbundna og litríka tónleika. Skemmst er að minnast þátttöku hans í sjónvarpsþættinum Hljómskálanum sem tekinn var upp í Eldborgarsalnum í tilefni af Listahátíð í Reykjavík þar sem Tenor vakti nokkra lukku.

Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 21. Finnannum er þó fleira til lista lagt en tónlist og kvað einnig vera liðtækur ljósmyndari.

Á laugardag opnar ljósmyndasýningin Autobahn í kjallara Norræna hússins. Á sýningunni eru myndir sem Tenor hefur tekið um heiminn af dýrahræjum sem hafa orðið fyrir bílum og er útkoman einna líkust abstrakt-málverkum. Tenor lóðsar gesti um sýninguna klukkan 15 og aftur klukkan 16 á laugardag en hún stendur til 27. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×