Fótbolti

Gamli Inter-maðurinn var hetja AC Milan í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giampaolo Pazzini fagnar alltaf eins.
Giampaolo Pazzini fagnar alltaf eins. Mynd/AFP
Giampaolo Pazzini, var hetja AC Milan, í sínum fyrsta leik í byrjunarliði liðsins í gær þegar AC Milan vann 3-1 sigur á Bologna í ítölsku úrvalsdeildinni. Pazzini skoraði öll þrjú mörk AC Milan þar af tvö þeirra á síðustu þrettán mínútum leiksins.

Pazzini kom til AC Milan frá Internazionale fyrir tímabilið og var varamaður þegar AC Milan tapaði 0-1 á móti Sampdoria í fyrstu umferðinni.

Pazzini kom til Internazionale frá Sampdoria 2011 og var með 16 mörk í 50 leikjum með Inter undanfarin tvö tímabil. Hann er 28 ára gamall framherji sem er þekktastur fyrir að hreyfa sig vel án bolta og skora með skalla.

Giampaolo Pazzini kom AC Milan í 1-0 úr vítaspyrnu á 16. mínútu en Alessandro Diamanti jafnaði úr víti þremur mínútum fyrir hálfleik.

Pazzini tryggði síðan AC Milan fyrsta sigur tímabilsins með því að skora á 77. og 85. mínútu. Fyrra markið kom eftir mistök markvarðar Bologna en það seinna af stuttu færi.

Nigel de Jong kom inn á sem varamaður fyrir Riccardo Montolivo á 41. mínútu og lék sinn fyrsta leik með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×