Fótbolti

Versta byrjun AC Milan í 60 ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
AC Milan er aðeins með sjö stig að loknum átta leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni og er það versta byrjun liðsins í heil 60 ár.

Liðið tapaði í gær fyrir Lazio, 3-2, eftir að hafa lent 3-0 undir. Mikil pressa er á stjóra AC Milan, Massimiliano Allegri, en forráðamenn félagsins segja engu að síður að hann muni halda sínu starfi.

Sjálfur viðurkenndi Allegri að staða sín væri ekki góð. „Það er eðlilegt að staða þjálfarans sé skoðuð þegar liðinu gengur illa. Við erum með sjö stig eftir átta leiki og verðum að klífa upp töfluna. Hún er eins og hún er," sagði Allegri.

AC Milan er í tólfta sæti deildarinnar - aðeins tveimur stigum frá fallsæti. „Við munum sogast niður í fallbaráttuna ef við bætum okkur ekki," bætti Allegri við.

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, segir að Allegri muni halda starfi sínu. „Það hefur enginn áhuga á því að skipta um þjálfara. Þetta er erfitt eins og er en við verðum að halda ró okkar. Lukkudísirnar eru ekki á okkar bandi en þetta mun breyast. Við höldum áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×