Körfubolti

NBA: Lakers tapaði og Miami vann Boston

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade var frábær í nótt.
Dwyane Wade var frábær í nótt. Mynd/Nordic Photos/Getty
NBA-deildin í körfubolta hófst í nótt með þremur leikjum. NBA-meistarar Miami Heat byrjuðu á sigri á Boston Celtics en nýju stjörnurnar í Los Angeles Lakers töpuðu aftur á móti á móti vængbrotnu liði Dallas Mavericks.

Los Angeles Lakers tapaði öllum átta leikjum sínum á undirbúningstímabilinu og ekki byrjar deildarkeppnin betur því liðið tapaði 91-99 á heimavelli á móti Dallas Mavericks í nótt.

Kobe Bryant hefur verið að glíma við meiðsli en var með og skilaði 22 stigum en Spánverjinn Pau Gasol var atkvæðamestur með 23 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar.Dwight Howard og Steve Nash léku sinn fyrsta deildarleik með Lakers, Howard skoraði 19 stig en fékk líka 6 villur og Nash var með 7 stig og 4 stoðsendingar. Howard klikkaði líka á 11 af 14 vítum sínum.

Dallas lék án Dirk Nowitzki og þá hefur liðið misst marga leikmenn frá því að þeir urðu NBA-meistarar 2011. Það kom ekki að sök því margir voru að skila til liðsins. Sex leikmenn skoruðu yfir tíu stig en atkvæðamestir voru Darren Collison með 17 stig og Brandan Wright

með 14 stig.

Dwyane Wade skoraði 29 stig, Lebron James var með 26 stig og 10 fráköst á 29 mínútum og Ray Allen kom með 19 stig af bekknum þegar Miami Heat vann 120-107 sigur á Boston Celtics. James spilaði lítið í fjórða leikhlutunum en líkt og í úrslitakeppninni þá glímdi hann við krampa í fæti. Paul Pierce skoraði 23 stig fyrir Boston og Rajon Rondo var með 20 stig og 13 stoðsendingar.

Cleveland Cavaliers vann fyrsta sigur tímabilsins þegar liðið vann 94-84 heimasigur á Washington Wizards. Anderson Varejao var með 9 stig, 23 fráköst og 9 stoðsendingar og nýliði ársins í fyrra, Kyrie Irving, var með 29 stig. Liðið fékk líka 17 stig frá nýliðanum Dion Waiters. Jordan Crawford skoraði mest hjá Washington eða 11 stig en liðið lék án John Wall, Nene og Kevin Seraphin.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×