Körfubolti

Harden fékk bara klukkutíma til að segja já eða nei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden.
James Harden. Mynd/Nordic Photos/Getty
James Harden segist hafa sárnað mikið þær aðstæður sem Oklahoma City Thunder setti hann í á dögunum og urðu á endanum til þess að félagið skipti honum til Houston Rockets þar sem kappinn hefur blómstrað í fyrstu leikjum NBA-tímabilsins.

Sam Presti, framkvæmdastjóri NBA-körfuboltafélagsins Oklahoma City Thunder, hringdi í James Harden þegar hann var út að borða og sagði að hann hefði klukkutíma til að segja já eða nei við 54 milljón dollara samningi. Presti varð nefnilega að svara Houston sama kvöld ætlaði hann að ná að skipta Harden til Rockets.

„Eftir allt sem við höfum gengið í gegnum og afrekað saman þá gefa þeir mér einn klukkutíma. Þetta var ein stærsta ákvörðunin á minni ævi og ég vildi fá að fara heim og hugsa vel um þetta. Mér sárnaði mikið," sagði James Harden við Yahoo.

Harden svaraði nei eins og þekkt er og skoraði síðan 82 stig í fyrstu tveimur leikjum sínum með Houston Rockets. Áður hafði hann þó gengið frá nýjum 80 milljón dollara samningi og fékk því miklu meiri pening en hann hefði nokkurn tímann getað fengið hjá Oklahoma City Thunder.

Harden var valinn besti leikmaður fyrstu vikunnar í Vesturdeildinni en hann var þá með 35,3 stig og 6,3 stoðsendingar að meðaltali auk þess að hitta úr 52,9 prósent skota sinna. Houston vann 2 af 3 leikjum sínum í vikunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×