Detroit Pistons er enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri í NBA-deildinni þetta tímabilið. Liðið tapaði fyrir Houston í nótt, 96-82.
James Harden skoraði 20 stig fyrir Houston og Omer Asik var með fjórtán. Houston var án þjálfarans Kevin McHale sem fór í tímabundið leyfi frá störfum í gær af fjölskylduástæðum.
Hjá Detroit var Brandon Knight stigahæstur með sextán stig og Greg Monroe var með tólf stig og ellefu fráköst.
Charlotte hafði betur gegn Dallas í framlengdum leik, 101-97. Nýliðinn Michael Kidd-Gilchrist var með 25 stig og tólf fráköst fyrir Charlotte sem hafði tapað sextán leikjum í röð gegn Dallas.
OJ Mayo var með 22 stig fyrir Dallas og Vince Carter nítján. Carter fékk tækifæri til að tryggja Dallas sigur en skot hans í lok fjórða leikhluta klikkaði.
Denver hafði betur gegn Golden State í tvíframlengdum leik, 107-101. Denver skoraði síðustu ellefu stigin í leiknum og þar fór Danilo Gallinari mikinn. Hann skoraði alls 21 stig í leiknum.
Úrslit næturinnar:
Toronto - Philadelphia 83-93
Indiana - Washington 89-85
Charlotte - Dallas 101-97
Chicago - Minnesota 87-80
Houston - Detroit 96-82
Milwaukee - Boston 92-96
Utah - Phoenix 94-81
Portland - San Antonio 109-112
Golden State - Denver 101-107
NBA í nótt: Sjöunda tap Detroit í röð
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
