Samkvæmt úrskurði rússneskra dómstóla verður vefsíðum meinað að birta myndbönd hljómsveitarinnar Pussy Riot. Dómurinn var kveðinn upp í morgun en hann felur í sér að aðgangur að myndböndunum verði takmarkaður á þeim grundvelli að meðlimir Pussy Riot séu öfgasinnar.
Á meðal þeirra myndbanda sem dómstóllinn fjallaði um var tónlistarmyndband sem Pussy Riot tók upp í kirkju rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar fyrr á þessu ári. Seinna meir hlutu þrír meðlimir hljómsveitarinnar fangelsisdóma fyrir athæfið.
Myndbandið er vistað á YouTube sem er í eigu Google. Frá því að það birtist á vefsíðunni í mars á þessu ári hafa rúmlega tvær milljónir manna horft á myndbandið.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni Google í Rússlandi að myndbandið yrði ekki fjarlægt fyrr en bein tilskipun þess efnis bærist frá yfirvöldum í Rússlandi.