Manchester United mætir Real Madrid í stórleik 16-liða úrslita Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu en dregið var í dag. Fylgst var með drættinum hér á Vísi.
Arsenal mætir Bayern München frá Þýskalandi en Bæjarar komust í úrslitaleikinn á síðustu leiktíð þar sem liðið beið lægri hlut gegn Chelsea. Barcelona mætir AC Milan en ítalska liðið má muna sinn fífil fegurri þótt liðið hafi gert vel að komast í útsláttarkeppnina.
Þessi lið mætast (liðið á undan á fyrri leikinn á heimavelli):
Real Madrid - Manchester United
AC Milan - Barcelona
Arsenal - Bayern München
Porto - Malaga
Shakhtar Donetsk - Borussia Dortmund
Valencia - PSG
Celtic - Juventus
Galatasaray - Schalke
Fyrri leikirnir fara fram 12. og 13. febrúar en þeir síðari 19. og 20. febrúar.
Ljóst er að Cristiano Ronaldo, liðsmaður Real Madrid, snýr aftur á gamla heimavöll sinn í Manchester. Ronaldo spilaði með Manchester United frá árinu 2003-2009 við afar góðan orðstír. Hann fylgdi í fótspor David Beckham, fyrrum leikmanns United, sem gekk til liðs við spænska risann árið 2003.
Celtic frá Glasgow fékk erfitt verkefni þegar liðið dróst gegn Ítalíumeisturum Juventus.
„Hvað glæsileika varðar er þetta stórkostlegur leikur. Hvað möguleika okkar varðar þá verður þetta afar erfitt. Þetta hefði verið erfitt alveg sama hver andstæðingurinn hefði verið. Við tökum þessu. Allt getur gerst í tveimur leikjum," sagði Neil Lennon stjóri Celtic.
Fyrirkomulagið var þannig að liðunum sextán var raðað í tvo átta liða potta. Í þeim fyrri voru sigurliðin úr riðlunum átta en í hinum liðin í öðru sæti.
Lið úr Potti 1 mæta liðum úr Potti 2. Þó geta lið frá sömu löndum ekki mæst og heldur ekki lið sem voru saman í riðli.
Pottur 1
Paris Saint-Germain , Schalke 04, Málaga, Borussia Dortmund, Juventus, Bayern München, Barcelona, Manchester United
Pottur 2
Porto, Arsenal, AC Milan, Real Madrid, Shakhtar Donetsk, Valencia, Celtic, Galatasaray
