Skoðun

Meira kjöt á beinin

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Nafnabylgjan sem ríður yfir eftir fremur óljós orð forsetans um eigin stöðu og endurkjör í vor á eftir að hjaðna. Eflaust kristallast álitleg framboð úr henni seint í vetur. Líklegast er að 5 til 10 manns reyni söfnun meðmælenda og fjármuna, og skipuleggi snarpa framboðshrinu. Með það í huga verður að telja það galla, að ekki skuli að lokum kosið aftur og þá milli tveggja efstu frambjóðenda.

Ég hef áður bent á, í blaðagrein, að núverandi forseti hefur ekki breytt forsetaembættinu til frambúðar; ekki frekar en forsetinn sem gegndi stöðunni í 16 ár, næst á undan honum. Sérhver forseti ákveður embættisfærslu sína innan stjórnarskrárrammans sem er auðvitað sá gamli, enn um sinn. Vilji nógu margir kjósendur aðrar áherslur en hjá núverandi forseta, eða þeim þar næsta á undan, geta þeir einfaldlega ráðið til um það.

Ýmsir telja embættið stórpólitískt til frambúðar og auglýsa jafnvel eftir „sterka manninum” til að stjórna landinu. Þetta er tálsýn og fjarri lýðræðisreglum og -hefðum landsins. Sá veldur sem á heldur auk þess sem bæði núverandi stjórnarskrá og tillögur Stjórnlagaráðs eru langt frá einhvers konar forsetaræði. Forsetaframbjóðendur verða að svara mörgum lykilspurningum um mótaða afstöðu sína til samspils forseta, Alþingis og ríkisstjórnar, um helstu heimsmál og um menningu og mannlíf heima og heiman og þá duga ekki almennar, loðnar eða vinsælar yfirlýsingar.

Á þetta má minna hér og nú og einnig á að menn, karlar og konur, dragi andann djúpt og komi framboðsmálum almennt upp úr hjólförum sem einkennast af sífelldri skimun eftir þekktum andlitum úr fjölmiðlum. Meira þarf til.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×