Aginn festur í sessi Ólafur Stephensen skrifar 16. janúar 2012 07:00 Fréttablaðið sagði frá því um helgina að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) aðstoðaði nú fjármálaráðuneytið við gerð nýrrar rammalöggjafar, sem á að koma meira aga og skipulagi á undirbúning fjárlaga og töku ákvarðana um þau á Alþingi. Þannig á að taka á ýmiss konar vöntun, glufum og ósamræmi í lagaumhverfinu sem áttu sinn þátt í fjármálalegum óstöðugleika fyrir bankahrun. Fjármálaráðuneytið stefnir að því að leggja drög að nýrri rammalöggjöf fram til kynningar á Alþingi fyrir þinglok í vor. Meðal þess sem mun breytast, verði farið að tillögum AGS, er að það heyri sögunni til að málefni einstakra stofnana skjóti upp kollinum á síðustu stundu við fjárlagagerð, eins og algengt hefur verið til þessa. Í frétt Fréttablaðsins í fyrradag kom fram að eftir breytingu sé stefnt að því að fyrirkomulagið verði þannig að komi í ljós að stofnun skorti fé eftir að búið er að úthluta fé til hennar málaflokks, verði ekki annað í boði en tilfærsla fjármuna sem ætlaðir hafa verið til þess málaflokks, en ekki aukin fjárútlát skattgreiðenda. Ríki víða um heim, ekki sízt í Evrópu, standa nú í erfiðri glímu við ríkisfjármálin og leitast við að koma á þau betri skikk og aga. Við erum í sömu stöðu og fjölmörg önnur Evrópulönd að því leyti að boginn var spenntur of hátt í ríkisfjármálum á meðan vel gekk í efnahagslífinu. Fyrir vikið var minna svigrúm til að bregðast við þegar dýfan kom og grípa þurfti til sársaukafulls niðurskurðar. Þeirri vinnu er ekki lokið; enn á eftir að skera meira niður til þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum. Skattahækkanir eru komnar umfram sársaukamörk. Þeir tímar ættu að vera á enda þegar gjaldahlið fjárlaga hækkar verulega í meðförum Alþingis. Lausungin við meðferð fjár skattgreiðenda hefur verið alltof mikil meðal þingmanna, sem hafa verið veikir fyrir þrýstingi kjördæma og hagsmunahópa. Reynslan af þeim mistökum sem voru gerð fyrir hrun ætti líka að kenna okkur að hefja ekki leikinn að nýju þegar betur árar í efnahagslífinu. Starfsumhverfi stjórnmálamanna var of þægilegt á meðan skatttekjurnar ultu nánast fyrirhafnarlaust inn í ríkissjóð. Þeir þurftu sjaldan að segja nei. Voru of ginnkeyptir fyrir ræðunni um að ein ríkasta þjóð í heimi hlyti nú að hafa efni á þessum útgjöldunum eða hinum. Við erum og verðum áfram í hópi ríkustu þjóða heims. En skuldakreppan beggja megin Atlantshafsins kennir okkur að jafnvel ríkustu þjóðir heims hafa ekki efni á hverju sem er. Stjórnmálamenn þurfa að segja nei við mörgum tillögum um aukin útgjöld. Aga og skipulag við gerð fjárlaga þarf að festa í sessi. Samstarf okkar við AGS hefur stuðlað að því hér á landi. Aðstoð sjóðsins við að setja rammalöggjöf um fjárlagagerðina ætti því að vera vel þegin. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Hlíðarendi – hverfið mitt Freyr Snorrason Skoðun Lukka Sjálfstæðisflokksins Inga María Hlíðar Thorsteinson Skoðun Má skera börn? Magnea Gná Jóhannsdóttir Skoðun Jens er rétti maðurinn í brúna! Anton Berg Sævarsson Skoðun Hver er betri sem formaður Sjálfstæðisflokksins? Þórir Garðarsson Skoðun Stuðningur fyrir börn í vanda getur verið lífsbjörg Stefán Guðbrandsson Skoðun Reykurinn sást löngu fyrir brunann! Davíð Bergmann Skoðun Strandveiðar – nýliðun hægri vinstri Steindór Ingi Kjellberg Skoðun Heilbrigðisyfirvöld með í samtali um hugvíkkandi meðferðir Sara María Júlíudóttir Skoðun Löggjafinn brýtur á skólabörnum (grein 1) Valdís Ingibjörg Jónsdóttir Skoðun
Fréttablaðið sagði frá því um helgina að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) aðstoðaði nú fjármálaráðuneytið við gerð nýrrar rammalöggjafar, sem á að koma meira aga og skipulagi á undirbúning fjárlaga og töku ákvarðana um þau á Alþingi. Þannig á að taka á ýmiss konar vöntun, glufum og ósamræmi í lagaumhverfinu sem áttu sinn þátt í fjármálalegum óstöðugleika fyrir bankahrun. Fjármálaráðuneytið stefnir að því að leggja drög að nýrri rammalöggjöf fram til kynningar á Alþingi fyrir þinglok í vor. Meðal þess sem mun breytast, verði farið að tillögum AGS, er að það heyri sögunni til að málefni einstakra stofnana skjóti upp kollinum á síðustu stundu við fjárlagagerð, eins og algengt hefur verið til þessa. Í frétt Fréttablaðsins í fyrradag kom fram að eftir breytingu sé stefnt að því að fyrirkomulagið verði þannig að komi í ljós að stofnun skorti fé eftir að búið er að úthluta fé til hennar málaflokks, verði ekki annað í boði en tilfærsla fjármuna sem ætlaðir hafa verið til þess málaflokks, en ekki aukin fjárútlát skattgreiðenda. Ríki víða um heim, ekki sízt í Evrópu, standa nú í erfiðri glímu við ríkisfjármálin og leitast við að koma á þau betri skikk og aga. Við erum í sömu stöðu og fjölmörg önnur Evrópulönd að því leyti að boginn var spenntur of hátt í ríkisfjármálum á meðan vel gekk í efnahagslífinu. Fyrir vikið var minna svigrúm til að bregðast við þegar dýfan kom og grípa þurfti til sársaukafulls niðurskurðar. Þeirri vinnu er ekki lokið; enn á eftir að skera meira niður til þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum. Skattahækkanir eru komnar umfram sársaukamörk. Þeir tímar ættu að vera á enda þegar gjaldahlið fjárlaga hækkar verulega í meðförum Alþingis. Lausungin við meðferð fjár skattgreiðenda hefur verið alltof mikil meðal þingmanna, sem hafa verið veikir fyrir þrýstingi kjördæma og hagsmunahópa. Reynslan af þeim mistökum sem voru gerð fyrir hrun ætti líka að kenna okkur að hefja ekki leikinn að nýju þegar betur árar í efnahagslífinu. Starfsumhverfi stjórnmálamanna var of þægilegt á meðan skatttekjurnar ultu nánast fyrirhafnarlaust inn í ríkissjóð. Þeir þurftu sjaldan að segja nei. Voru of ginnkeyptir fyrir ræðunni um að ein ríkasta þjóð í heimi hlyti nú að hafa efni á þessum útgjöldunum eða hinum. Við erum og verðum áfram í hópi ríkustu þjóða heims. En skuldakreppan beggja megin Atlantshafsins kennir okkur að jafnvel ríkustu þjóðir heims hafa ekki efni á hverju sem er. Stjórnmálamenn þurfa að segja nei við mörgum tillögum um aukin útgjöld. Aga og skipulag við gerð fjárlaga þarf að festa í sessi. Samstarf okkar við AGS hefur stuðlað að því hér á landi. Aðstoð sjóðsins við að setja rammalöggjöf um fjárlagagerðina ætti því að vera vel þegin.