Skoðun

Skuggi Dostójevskís og Vladimir Pútín

Sigurður Árni Þórðarson skrifar

Vladimir Pútín dáir Fjodor Dostójevskí og telur að Karamazov-bræðurnir sé ein af mikilvægustu bókum Rússa. Pútín hefur sagt að Dostójevskí sé einn þeirra rithöfunda sem skilji hvað best vald, ábyrgð og andstæðuna milli frelsis og skyldu. En Pútín er nútímaútgáfa rannsóknardómarans í Sevilla.

Rannsóknardómarinn ógurlegi

Ívan Karamazov sagði Aljosha, bróður sínum, sögu um kardínála sem var rannsóknardómari í Sevilla á Spáni. Sagan varð lykilsaga hins mikla sagnabálks um líf og örlög Karamazov-bræðranna. Í sögu Ívans segir frá að Jesús Kristur heimsótti Sevilla á tímum spænska rannsóknarréttarins sem var ofstækisútgáfa kaþólsku á miðöldum. Jesús fór meðal fólks, læknaði sjúka og lífgaði látið barn. Fólkið í borginni taldi sig þekkja Jesú Krist í þessum lækningamanni og lífgjafa en rannsóknardómarinn lét handtaka frelsarann í nafni kirkjunnar.

Klerkur vitjaði Jesú Krists svo í fangelsinu um nótt. Hann hélt langa ákærutölu og ásakaði Jesú fyrir að hafa ofmetið mennina, brugðist rangt við og haldið fram kenningu sem ekki passaði fólki. Jesús hafi ofmetið möguleika manna og ekki skilið að fólk kysi frekar mat en frelsi, að menn þyldu ekki að axla mikla ábyrgð og gætu ekki auðveldlega valið á milli kosta. Þess vegna hefði kirkjan neyðst til að leiðrétta boðskap Jesú Krists og búa til nýjar áherslur. Frelsi hefði verið skipt út og hlýðni komið í þess stað. Kirkjustjórnin hafi leiðrétt stefnu Jesú Krists og því gert mennina hamingjusama. Rannsóknardómarinn fangelsaði Jesú Krist, ákærði hann og dæmdi. Reyndar stóð Jesús upp án þess að verja sig eða mótmæla, kyssti kardínálann og hvarf síðan.

Frelsi eða hlýðni

Í fangelsisræðunni eru bornar saman ólíkar hugmyndir um frelsi og dýpstu þarfir manna. Stefna Jesú er stefna hins róttæka frelsis, virðingar fyrir manngildi og gildum. En stefna dómarans og leiðtoga kirkju einræðisins er táknmynd samfléttaðs valds og trúar, ástar og kúgunar. Rannsóknardómarinn elskar vissulega mannkynið en sú ást bindur og fjötrar. Hann álítur að mannfólkið sé það óþroskað og ósjálfstætt að það þarfnist sterks leiðtoga sem ákveður hvað sé rétt og hollt og hvað ekki. Þessi fulltrúi kirkjunnar afneitaði því Jesú Kristi í nafni mannúðar. Kjarni stefnu dómarans er að frelsi sé mönnum ekki blessun heldur byrði. Í ýmsum rússneskum trúar- og menningarhefðum er líka kennt að vilji fólks nægi ekki í lífsbarátunni heldur aðeins undirgefni við vilja Guðs. Merking og sátt fólks fæðist í hlýðni og skýrist í þjáningu. Hlýðni og þjáning er gjarnan réttlætt í ofstjórnarkerfum.

Rússahlýðnin og ríkið

Það er ekki tilviljun að Pútín talar um ríkið sem foreldri þjóðarinnar. Hann telur að Rússar þarfnist stjórnar sem getur varið þá gegn óreiðu frelsisins. Hann lýsir Vesturlöndum sem spilltum vegna einstaklingshyggju og siðferðisupplausnar en kennir að Rússland varðveiti siðferðisstyrk og öryggi. Lífsafstaða og heimsmynd Pútíns er sú sama og rannsóknardómarans, að frelsi leiði til sundrungar en hlýðni til öryggis og sáttar.

Pútín telur að Rússland hafi misst trúna þegar Sovétríkin féllu. Hlutverk hans sé að gefa fólki traust, þó ekki í frelsi, heldur með trú, þjóðernisvitund og öflugri landsstjórn. Afstaða Pútíns er að Rússar, rétt eins og íbúar Sevilla samkvæmt kenningu rannsóknardómarans, sækist eftir því sem sameinar. Hlutverk leiðtoga sé að veita öryggi. Og stjórinn verður jafnframt táknmynd þess hóps sem hann stjórnar og veitir nánast guðlegt öryggi.

Ást sem lemur

Það sem gerir rannsóknardómarann í Sevilla skv. sögu Dostójevskís svo ógnvænlegan var ekki grimmd hans, heldur fremur ást hans. Hann réttlætti kúgun með góðmennsku. Hann svifti fólk frelsi til að frelsa það frá sjálfu sér. Þá djúpu siðferðislegu þversögn í riti Dostójevskís hefur Pútín gert að meginstefnu rússneskrar stjórnsýslu. Hann talar ekki eins og harðstjóri sem óttast fólk, heldur eins og verndari sem elskar það. Hann réttlætir árás á frelsi fjölmiðla sem varnarráðstöfun gegn siðspillingu Vesturlanda. Hann segir að Rússar þurfi að vera sameinaðir gegn ógn utanaðkomandi hugmyndafræði og gegn öllu vafasömu sem veikir þjóðina. Í nafni kærleika og trúar byggir hann kerfi sem útilokar efa og umbunar hlýðni. Það var líka aðferð rannsóknardómarans. Pólitísk stefna og siðfræði Pútíns er lík aðferð hrottans í heimilisofbeldi, að alvöru húsbóndi lemji fólkið sitt vegna ástar og umhyggju. Pútín er líkur rannsóknardómaranum í því að hann skammast sín ekki fyrir dóma og dráp. Báðir eru vissir í sinni sök – forhertir.

Kirkja sem ambátt

Í ræðu rannsóknardómarans er kirkja valdastofnun sem skilgreinir og stjórnar fólki og notar trú til að réttlæta og styrkja vald sitt. Sevillakirkjan hafði tekið yfir stjórn hins veraldlega samfélags. Í Rússlandi Pútíns hefur samruni líka orðið en með því móti að ríkið hefur innlimað kirkjuna í valdakerfi sitt. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan er notuð sem menningarleg og andleg réttlæting ríkisvaldsins. Rússakirkjan blessar stríð, réttlætir fórnir og kallar andstöðu við Pútínstefnuna guðleysi. Pútín ver kirkjuna gegn gagnrýnendum, fangelsar þá og jafnvel líflætur. Rússneska ríkið hefur gert kirkjuna að ambátt sinni. Kirkjan gengur erinda pólitískrar stefnu. Ríki og kirkja eru eining, eitt kerfi. Þjóðin er líkami en leiðtoginn höfuð hennar. Pútín talar um Rússland sem heilagt land, siðferðilegt vald sem ver heiminn fyrir spilltri menningu. Pútínstefna minnir á Sevilla-einræði dómarans, að kirkjan hafi tekið að sér að gera mannkynið hamingjusamt með því að stjórna því Jesús Kristur hafi verið of veikur til að halda því saman.

Hinn eitraði kokteill

Dostójevskí sá og túlkaði hættuna á ofríki þegar hann skrifaði bókina um Karamazov-bræðurna. Þegar fólk er svift hinu djúpa og róttæka frelsi trúar verður til skert en hættulegt valdakerfi. Einræðisherrar telja sig hafa rétt fyrir sér, þeir elski fólk svo mikið að þeir megi og eigi að skilgreina í hverju velferð þess er fólgin. Fólk geti ekki valið rétt og orðið hamingjusamt nema kerfið sé í stíl við trú og stefnu leiðtogans.

Í djúpi sögu Dostójevskís er viðvörun um að kirkja sem óttast frelsi manna breytist í dómstól sem hlýðir valdi og er gríma guðleysis. Slíkir dómstólar fara á svig við manngildi og mannhelgi. Í hugmyndafræði Pútíns er trú ekki persónuleg reynsla og ræktuð í frelsi. Trú er skyldurækni og hlýðni við þjóð og leiðtoga. Þegar trú verður að þjónkun við siðareglu ríkisins verður hún að tæki stjórnunar. Trú sameinuð pólitík er eitraður kokteill.

Víti til varnaðar

Jesús sagði ekkert, kyssti dómarann og fór. En kirkjuhöfðinginn sagði Jesú að fara og koma aldrei aftur. Senan er spegill allra valdhafa sem segjast virða hið trúarlega, jafnvel elska Guð, en bæta við: „Ekki trufla okkur.“ Pútín og rannsóknardómarinn kjósa ríki og samfélag þar sem friður og eining ríkja jafnvel þótt það sé á kostnað sannleikans og blóði drifið. Frelsið er dýrt.

Það er átakanlegt að Dostójevskí sem vildi bjarga Rússlandi frá andlausri nútímahyggju skuli hafa orðið innblástur fyrir vald sem réttlætir sterka forsjárhyggju og harðræði. En Dostójevskí var skarpur. Hann sá og skildi að mannfólkið er bæði trúarverur og samfélagsverur. Hann áttaði sig að ást á villigötum getur umbreyst í ofríki ef hún virðir ekki frelsi fólks og margbreytileika. Rannsóknardómarinn er ekki aðeins persóna í bókmenntum heldur víti til varnaðar. Í pólitík Pútíns er draugagangur. Pútín dáir kannski Dostójevskí og bók hans um Karamazov-bræðurna en Pútín er orðinn böðull í flokki rannsóknardómarans í Sevilla. Pútín er maðurinn sem elskar þjóðina of mikið til að treysta henni. Í því er fall hans fólgið. Jesús hefur þegar kysst hann.

Höfundur er prestur.




Skoðun

Sjá meira


×