Skoðun

Bless, Jakobína

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, doktorsnemi í menntunarfræðum, sendir mér kveðju sína í Fréttablaðinu þann 9. febrúar. Í greininni segir hún, að „þekking á málefnum uppeldis og menntunar sé lokuð inni í fílabeinsturnum menntaelítunnar“. Stöku sinnum „geysist hins vegar fram á völlinn leikmenn eins og veðurfræðingar og gamlir stjórnmálamenn með illa ígrundaðar fullyrðingar“. Doktorsnemanum þykir sem sé ekki við hæfi að fólk eins og veðurfræðingar og gamlir stjórnmálamenn tjái sig um menntunarmál. Auk þess segir hún að ég sé hvergi nærri nógu menntaður til þess að geta haft á þeim markverða skoðun. Svona er víst talað úr fílabeinsturnunum. En hvers eiga veðurfræðingar að gjalda?

Samt segir doktorsneminn: „Vissulega er það áhyggjuefni að 25% drengja geti ekki lesið sér til skilnings“. Hún nefnir hins vegar ekki með einu orði hvað beri að gera til þess að ráða bót á því. Þó hún vilji helst meina mér það get ég þó ekki látið hjá líða að nefna aftur hann pabba minn. Hefði Jakobína Ingunn Ólafsdóttir verið kennari hjá honum og ekki náð meiri árangri með bekkinn sinn eftir tíu ára starf en svo að fjórði hver drengur í bekknum hefði ekki getað lesið sér til skilnings hefði hann pabbi minn ekki endurráðið hana til kennslu barna vestur á Ísafirði. Það hefði svo sem verið í lagi. Hún hefði þá bara getað farið í doktorsnám í menntunarfræðum.

Í lokin ræðir doktorsneminn um grunnskólann á síðustu öld. Hún segir: „Eflaust má gera því skóna að hversu vel heppnuð þöggunin var í fyrirhrunssamfélaginu megi rekja til afleits uppeldis í grunnskólum á síðustu öld.“

Nú sé ég ekki betur af myndinni, sem greininni fylgdi, en að doktorsneminn hafi – rétt eins og ég – hlotið sitt uppeldi í grunnskólum síðustu aldar. Ég er nú þokkalega ánægður með það grunnskólauppeldi sem ég hlaut. Doktorsneminn telur sig hins vegar hafa hlotið þar afleitt uppeldi. Mikið er það nú leiðinlegt. En fólk ber víst uppeldisins merki. Svo er sagt.

Við náum því örugglega ekki saman – enda sitt hvorum megin veggjar fílabeinsturnsins. Bless, Jakobína. Farnist þér vel í þínu námi.




Skoðun

Skoðun

Daníel Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×