Alexandre Pato hefur spilað sinn síðasta leik fyrir AC Milan því ítalska félagið ákvað að selja brasilíska framherjann til Corinthians. Pato spilar því á ný í heimalandinu.
Alexandre Pato var búin að gefa það út að hann vildi komast heim til Brasilíu og gerði fjögurra ára samning við brasilíska félagið. Corinthians kaupir hann á fimmtán milljónir evra sem er dágóð upphæð fyrir meiðslahrjáðan leikmann.
Alexandre Pato er þó bara 23 ára gamall þrátt fyrir að hann hafi verið í fimm ár hjá AC Milan. Hann byrjaði ferilinn sinn hjá Internacional í Brasilíu en kom til Ítalíu árið 2007.
Pato skoraði 51 mark í 117 leikjum með AC Milan í ítölsku deildinni en var aðeins búinn að skora 1 mark í 15 leikjum undanfarið eina og hálfa tímabil. Hann hefur verið að glíma við langvinn meiðsli aftan í læri.
Alexandre Pato hefur skorað 9 mörk í 20 landsleikjum með Brasilíu þar af þrjú þeirra í fjórum leikjum á síðasta ári. Hann fær nú tækifæri til að vinna sér sæti í HM-hóp Brassana sem halda næsti heimsmeistarakeppni á næsta ári.
