Körfubolti

NBA í nótt: Óvæntur sigur Orlando á Clippers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grant Hill, Clippers, í baráttu við Josh McRoberts.
Grant Hill, Clippers, í baráttu við Josh McRoberts. Mynd/AP
Orlando gerði sér lítið fyrir og skellti sterku liði LA Clippers í Los Angeles í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 104-101.

Orlando hafði tapað tíu leikjum í röð en Clippers var ásamt Oklahoma City með besta árangur allra liða í NBA-deildinni fyrir gærkvöldið. Clippers hafði þar að auki unnið þrettán heimaleiki í röð sem er félagsmet.

JJ Redick kom Orlando yfir í fyrsta sinn í leiknum með þriggja stiga körfu þegar 42 sekúndur voru eftir og gestirnir héldu forystunni allt til loka. Jamal Crawford fékk tækifæri til að jafna metin í lokin en þriggja stiga skot hans klikkaði.

Aaron Afflalo var með 30 stig fyrir Orlando og Redick bætti við 21 stigi. Blake Griffin var með 30 stig fyrir Clippers.

Miami vann auðveldan sigur á Sacramento, 128-99, þar sem Mario Chalmers skoraði 34 stig og setti niður tíu þriggja stiga skot í leiknum. Bæði eru persónuleg met hjá honum.

LeBron James átti einnig góðan leik en hann var með 20 stig, sjö fráköst, fimm stolna bolta og tvö varin skot.

Úrslit næturinnar:

LA Clippers - Orlando 101-104

Washington - Atlanta 93-83

Indiana - Charlotte 96-88

Philadelphia - Houston 107-100

Detroit - Utah 87-90

Chicago - Phoenix 81-97

Dallas - Memphis 104-83

Sacramento - Miami 99-128

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×