Gífurleg aukning hefur orðið á smygli á hvítlauk inn á markaði Evrópusambandsins. Smyglið fer yfirleitt fram í gegnum Noreg eða Bretland.
Hvítlaukur þessi kemur allur frá Kína og smyglið á honum er tilkomið vegna hárra innflutningstolla á honum í Evrópusambandinu. Tollum þessum var komið á til að verja hvítlauksræktun í löndum sambandsins.
Í umfjöllun um málið á vefsíðu BBC segir að sænska lögreglan hafi nýlega gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur tveimur Bretum. Þeir eru grunaðir um að hafa smyglað hvítlauk að andvirði 10 milljóna evra eða 1,7 milljarða króna frá Kína í gegnum Noreg og til Svíþjóðar. Frá Svíþjóð var þessum hvítlauk síðan smyglað til annarra landa innan Evrópusambandsins.
Fram kemur á BBC að í síðasta mánuði hafi Breti verið dæmdur í sex ára fangelsi í London fyrir smygl á hvítlauk frá Kína til Bretlands. Í mars í fyrra var stærsti hvítlauksinnflytjandi á Írlandi einnig dæmdur í sex ára fangelsi af sömu sökum. Sá smyglaði 1.000 tonnum af hvitlauk sem var skráður sem epli á innflutningsskýrslum.
Kína framleiðir hátt í 19 milljónir tonna af hvítlauk árlega eða um 80% af heimsframleiðslunni.
Gífurleg aukning á hvítlaukssmygli frá Kína til ESB
