Sjö leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þar bar helst að Utah mátti þola 45 stiga tap fyrir Houston á heimavelli.
Þetta er mesta tap Utah á heimavelli í sögu félagsins en liðið hafði unnið síðustu sex leiki sína á undan í Salt Lake City. Gamla metið var 33 stiga tap fyrir Milwaukee árið 1980.
Það gekk fátt upp hjá Utah í leiknum og skotnýtingin var aðeins 39,5 prósent. Houston hafði örugga forystu allan leikinn og jók forystuna eftir því sem á leið.
James Harden skoraði 25 stig fyrir Houston og Omer Aik var með nítján fráköst í leiknum. Randy Foye var stigahæstur í liði heimamanna með 12 stig.
Denver vann nauman sigur á Indiana, 102-101, þar sem Andre Iguodala tryggði sigur liðsins af vítalínunni á lokasekúndu leiksins. Hann hafði stolið boltanum skömmu áður. Hann var alls með þrettán stig, tíu fráköst og sjö stoðsendingar í leiknum.
Chicago vann sinn sjöunda sigur í níu leikjum þegar að liðið vann Charlotte, 93-85. Jimmy Butler skoraði nítján stig sem er persónulegt met.
Úrslit næturinnar:
Toronto - Golden State 102-114
Philadelphia - Memphis 100-103
Washington - Sacramento 94-96
Brooklyn - Orlando 97-77
Chicago - Charlotte 93-85
Denver - Indiana 102-101
Utah - Houston 80-125
NBA í nótt: Stærsta tap Utah á heimavelli frá upphafi
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
