Golf

Rory og Tiger mættust á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy og Tiger Woods.
Rory McIlroy og Tiger Woods. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tveir bestu kylfingar heims samkvæmt opinbera heimslistanum, Norður-Írinn Rory McIlroy og Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods, fóru ekki langt í Heimsmeistaramótinu í holukeppni sem fram fór á dögunum í Arizona í Bandaríkjunum.

Þeir höfðu því nægan frítíma á meðan holukeppnin kláraðist um helgina og ákváðu að nýta tækifærið til að fara í tveggja manna holukeppni á sunnudaginn.

McIlroy og Woods mættust á golfvelli Medalist-klúbbsins í Hobe Sound í Flórída en Norður-Írinn segir frá þessu einvígi þeirra í viðtali við BBC.

„Við ákváðum að spila okkar eigin úrslitaleik í holukeppni nema að holukeppnin okkar tók 36 holur. Við mættust nefnilega í tveimur leikjum. Hann vann mig fyrst en mér tókst að vinna seinni hringinn. Þetta endaði því með jafntefli," sagði Rory McIlroy.

Rory McIlroy er í fyrsta sæti heimslistans en Tiger Woods er í öðru sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×