Körfubolti

Stan Van Gundy styður Dwight Howard

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Líf Dwight Howard í Los Angeles hefur ekki verið dans á rósum, hvorki innan né utan vallar.
Líf Dwight Howard í Los Angeles hefur ekki verið dans á rósum, hvorki innan né utan vallar. Mynd/Nordic Photos/Getty
Dwight Howard hefur deilt við fyrrum samherja sína hjá Orlando Magic að undanförnu en Howard fékk stuðning úr óvæntri átt á dögunum. Stan Van Gundy fyrrum þjálfari Magic hafði samband við Howard til að sýna honum stuðning.

„Hann veit að ég myndi aldrei gera lítið úr liðsfélögum mínum,“ sagði Howard eftir æfingu hjá Lakers í gær.

„Hann skildi nákvæmlega það sem ég hafði að segja og það sagði hann mér. Við vitum hve frábærir við vorum saman. Ég hef alltaf sagt honum að við fengjum annað tækifæri saman þá yrði það frábært.

„Ég sagði honum alltaf hvert mitt markmið var, ég vil vera sá besti frá upphafi og hann lagði hart að mér að ná þangað. Ég ber fulla virðingu fyrir honum,“ sagði Howard sem ber þó nokkra ábyrgð á því að Van Gundy var rekinn frá Orlando Magic á síðustu leiktíð.

„Að mínu mati sagði hann ekki að hann hafi ekki leikið með góðum leikmönnum í Orlando,“ sagði Van Gundy við NBC nýlega.

„Hann var að verja hegðun sína á velli. Hann var að verja það að hann geti verið brosmildur á velli og samt verið alvara um að vinna. Það sem hann ætlaði að segja er að 'við vorum með vanmetið lið í Orlando sem fór ekki hátt en við unnum marga leiki og ég var besti leikmaður liðsins og svona hagaði ég mér. Hvert er því vandamálið núna?',“ sagði Van Gundy.

Orðin sem gerðu fyrrum samherja Howard hjá Magic ósátta var þegar Howard sagði Orlando Magic liðið vera fullt af; „leikmönnum sem enginn vildi“. Jameer Nelson, Rashard Lewis og J.J. Redick svöruðu allir fyrir sig sem varð til þess að Van Gundy fann sig knúinn til að leysa þetta mál fyrrum leikmanna sinna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×