Golf

Rory McIlroy: Það var rangt hjá mér að hætta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy.
Rory McIlroy. Mynd/Nordic Photos/Getty
Rory McIlroy, efsti kylfingurinn á heimslistanum í golfi, sér eftir því að hafa hætt keppni á miðjum öðrum hring á Honda Classic mótinu í Flórída í síðustu viku. McIlroy gaf þá skýringu þá að hann væri að drepast úr tannpínu en segir það hafa verið seinni tíma afsökun.

„Það sem ég gerði var ekki gott fyrir mótið og ekki gott fyrir krakkana eða áhorfendurna sem voru komnir til að horfa á mig. Þetta var var röng ákvörðun hjá mér," sagði Rory McIlroy við Sports Illustrated.

McIlroy var aðeins búinn að klára átta holur þegar hann „gafst" upp. Hann sló þá annað höggið sitt í vatn og var þá kominn sjö yfir pari á þessum öðrum hring. „Ég hefði bara átt að halda áfram og klára hringinn eins vel og ég gæti þó að ég hefði komið inn á 85 höggum," sagði McIlroy.

Hinn 23 ára gamli McIlroy hefur verið í vandræðum það sem af er árinu en hann skipti um kylfur fyrir tímabilið en vill ekki kenna þeim um slæma spilamennsku í upphafi árs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×