Körfubolti

NBA í nótt: San Antonio vann uppgjör toppliðanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
San Antonio styrkti stöðu sína á toppi Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í nótt og New York Knicks skoraði aðeins 63 stig gegn Golden State.

San Antonio hafði betur gegn Oklahoma City, 105-93, í uppgjöri efstu tveggja liða Vesturdeildarinnar. Oklahoma City hefði með sigri jafnað árangur San Antonio og komist upp að hlið liðsins á toppnum.

Tiago Splitter var stigahæstur í liði San Antonio með 21 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst. Kawhi Leonard var með sautján stig og Danny Green sextán en alls skoruðu varamenn San Antonio 34 stig í leiknum, gegn sextán hjá Oklahoma City.

Kevin Durant skoraði 26 stig fyrir Oklahoma City og Russell Westbrook 25. Þetta var sjötta tap liðsins í röð á heimavelli San Antonio en liðið hafði þó unnið fimm leiki í röð í deildinni fyrir leik liðanna í nótt.

Tony Parker er frá vegna ökklameiðsla og verður áfram næstu þrjár vikurnar. Það kom þó ekki að sök í nótt.

Golden State vann ótrúlegan sigur á New York, 92-63, en liðið fékk síðast svona fá stig á sig í einum leik gegn Milawukee Hawks þann 28. desember árið 1953. Varnarleikur liðsins var frábær, eins og tölurnar bera með sér.

Stephen Curry var með 26 stig í leiknum og David Lee 21 en þetta var stærsti sigur Golden State á tímabilinu.

Carmelo Anthony spilaði sinn fyrsta leik eftir meiðsli en náði ekki að koma sínu liði til bjargar. Hann skoraði fjórtán stig fyrir New York í nótt.

Úrslit næturinnar:

Philadelphia - Brooklyn 106-97

San Antonio - Oklahoma City 105-93

Utah - Detroit 103-90

Phoenix - Denver 93-108

Golden State - New York 92-63

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×