Barcelona bíður mikil brekka annað kvöld er liðið þarf að vinna upp tveggja marka forskot AC Milan í Meistaradeildinni.
Milan vann heimaleik liðanna í sextán liða úrslitum keppninnar 2-0 og stendur því ansi vel að vígi fyrir kvöldið.
Börsungar hafa misst flugið síðustu vikur og miðjumaður liðsins, Andres Iniesta, segir að leikmenn liðsins þurfi að horfa á þennan leik sem algjöran úrslitaleik.
"Hugarfarið frá fyrstu mínútu verður að vera að þetta sé úrslitaleikur. Ég hef fulla trú á því að við getum snúið þessu dæmi við. Ég veit að strákarnir trúa því líka," sagði Iniesta.
