Körfubolti

Svíar með tvo NBA-leikmenn á EM í haust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonas Jerebko.
Jonas Jerebko. Mynd/AP
Svíar eru til alls líklegir á EM í körfubolta sem fer fram í Slóveníu í haust því allt stefnir í að liðið tefli fram tveimur NBA-leikmönnum á mótinu. Jeffery Taylor hefur gefið það út að hann verði með liðinu og þá vonast Svíar eftir að Jonas Jerebko verði líka með.

Jeffery Taylor er 23 ára gamall og 201 sm hár framherji sem spilar með Charlotte Bobcats. Taylor er á sínu fyrsta tímabili í deildinni en hann lék með Vanderbilt-háskólanum frá 2008 til 2012. Taylor er með 6,1 stig og 1,9 frákast að meðaltali á 19,5 mínútum í NBA-deildinni í vetur.

„Ég hef lengi stefnt á það að spila með landsliðinu á móti bestu landsliðum Evrópu og það er flott að þetta sé að ganga upp," sagði Jeffery Taylor í fréttatilkynningu. Faðir Jeffery Taylor var NBA-leikmaður sem settist að í Svíþjóð.

Jonas Jerebko er 26 ára og 208 sm framherji sem spilar með Detroit Pistons. Hann er á sínu þriðja tímabili í NBA-deildinni. „Jonas vill spila með landsliðinu og ég reikna með honum. Við þurfum samt að ganga frá nokkrum praktískum hlutum fyrst," sagði Jonte Karlsson, þjálfari sænska landsliðsins.

Jonas Jerebko er með 7,7 stig og 3,7 fráköst að meðaltali á 18,1 mínútu í NBA-deildinni í körfubolta á þessu tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×