Handbolti

Verður liðum í N1-deild karla fjölgað?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Vals og Stjörnunnar í umspilskeppni N1-deildar karla.
Úr leik Vals og Stjörnunnar í umspilskeppni N1-deildar karla. Mynd/Stefán
Tillaga liggur fyrir ársþing HSÍ um að fjölga liðum í N1-deild karla strax á næstu leiktíð.

Í stuttu máli snýst tillagan um að ef sextán lið skrá sig til leiks á Íslandsmótinu skuli tíu þeirra spila í efstu deild en sex í fyrstu deildinni.

Samkvæmt núverandi lögum HSÍ þarf Íslandsmótið að telja alls 20 lið svo að skiptingin verði á þann veg að tíu lið spili í efstu deild.

Sextán lið tóku þátt í Íslandsmótinu á tímabilinu sem lýkur nú í vor. Átta léku í N1-deildinni og átta í 1. deildinni.

Undanfarin ár hafa átta lið leikið í N1-deild karla og fjögur efstu liðin farið í úrslitakeppni. Samkvæmt nýju tillögunni myndi úrslitakeppnin stækka og átta efstu liðin fara í úrslitakeppni.

Verði liðunum fjölgað um tvö í N1-deild karla myndu Stjarnan og Afturelding bætast við deildina.

Tillagan verður tekin fyrir á ársþingi HSÍ sem haldið verður á þriðjudaginn næsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×