Körfubolti

NBA í nótt: Golden State fór á kostum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stephen Curry átti stórleik fyrir Golden State í nótt.
Stephen Curry átti stórleik fyrir Golden State í nótt. Mynd/AP
Denver tapaði sínum fyrsta heimaleik í NBA-deildinni í rúma þrjá mánuði en liðið fékk á sig 131 stig frá Golden State í leik liðanna í nótt.

Leiknum lauk með fjórtán stiga sigri gestanna, 131-117, þar sem Stephen Curry var með 30 stig og þrettán stoðsendingar. Staðan í rimmu liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar er 1-1.

Jarrett Jack bætti við 26 stigum fyrir Golden State og Harrison Barnes var með 21. Ty Lawson og Corey Brewer voru með nítján stig hvor fyrir Denver.

Denver vann alls 38 af 41 heimaleik sínum á leiktíðinni í NBA-deildinni en næstu leikir í rimmunni fara fram í Oakland.

Tveir aðrir leikir fóru fram í úrslitakeppninni í nótt. Miami og New York tóku þá 2-0 forystu í einvígum sínum.

Miami vann Milwaukee, 98-86, þar sem Dwyane Wade skoraði 21 stig fyrir meistarana og LeBron James nítján.

New York vann Boston, 87-71. Carmelo Anthony skoraði 34 stig fyrir New York og JR Smith nítján. Paul Pierce skoraði átján stig fyrir Boston sem spilar sinn fyrsta heimaleik á föstudag síðan að hryðjuverkin voru framan við endamark Boston-maraþonsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×