San Antonio Spurs vann öruggan 105-83 sigur á Memphis Grizzlies í fyrsta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildar NBA í kvöld.
San Antonio leiddi 31-14 að loknum fyrsta fjórðungi og hleypti gestunum aldrei inn í leikinn. Staðan í hálfleik var 51-37 og forystan var sextán stig fyrir lokafjórðunginn.
Tony Parker fór á kostum hjá heimamönnum, skoraði 20 stig auk þess að gefa níu stoðsendingar. Það munaði miklu að San Antonio hélt Zach Randolph í skefjum en Randolph skoraði aðeins tvö stig í leiknum.
Næsti leikur fer fram í Texas aðfaranótt miðvikudags.
