Körfubolti

Nowitzki tilbúinn að lækka launinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty

Dirk Nowitzki þýska stórstjarna NBA körfuboltaliðsins Dallas Mavericks hyggst taka á sig verulega launalækkun næsta sumar í von um að lokka aðra stórstjörnu til liðsins.

Forráðamenn Dallas Mavericks vonast til að fá annan af stærstu bitunum á leikmannamarkaði NBA í sumar. Chris Paul og Dwight Howard eru með lausa samninga og nái Dallas að fá annan þeirra til liðs við félagið þá er Nowitzki tilbúinn að taka sig umtalsverða launalækkun svo Dallas geti einnig keppst um bestu bitana á markaðnum sumarið 2014.

„Á þessum tímapunkti á mínum ferli snýst allt um að keppa og vinna,“ sagði Nowitzki við bandaríska fjölmiðla. „Þetta snýst ekki um peninga. Cuban sá um þá hlið mála fyrir löngu síðan,“ sagði Nowitzki en Mark Cuban eigandi Mavericks hefur séð til þess að Nowitzki er næst launahæsti leikmaður NBA á yfirstandandi tímabili, á eftir Kobe Bryant.

„Ég hef alltaf reynt að borga honum til baka með því að spila af hörku og vera til staðar fyrir félagið. Við munum ekki deila um peninga. Ég vil eiga möguleika á að vinna á mínum síðustu árum.“

Nowitzki mun þéna 22,7 milljónir dala á næsta tímabili en Mavericks á möguleika á að landa annað hvort Howard eða Paul ákveði annar hvor þeirra að minnsta kosti að yfirgefa Los Angeles.

„Það væri frábært að fá annan hvorn þeirra,“ sagði Nowitzki. „Það verður erfitt. Þeir eru báðir í Los Angeles þar sem menn vilja spila körfubolta. Við verðum að sjá hvað gerist. Vonandi náum við að funda með þeim í júlí og heilla annan hvorn þeirra upp úr skónum,“ sagði Nowitzki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×