Hollendingurinn Arjen Robben var hetja Bayern München í kvöld þegar hann skoraði sigurmarkið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley-leikvanginum í London. Bayern München vann 2-1 sigur á Borussia Dortmund og er Evrópumeistari meistaraliða í fimmta sinn.
Arjen Robben skoraði úrslitamarkið mínútu fyrir leikslok þegar leit út fyrir að leikurinn væri að fara í framlengingu. Markið skoraði hann eftir að hafa fengið laglega hælsendingu frá Franck Ribéry.
Bayern München var búið að tapa tveimur úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar á síðustu þremur árum og sigurinn er því langþráður í Bæjaralandi.
Arjen Robben lagði einnig upp fyrr markið fyrir Mario Mandžukic á 60. mínútu en lkay Gündogan jafnaði úr vítaspyrnu átta mínútum síðar.
Robben fór illa með tvö dauðafæri í fyrri hálfleik en bætti fyrir það í seinni hálfleiknum.
Borussia Dortmund byrjaði leikinn frábærlega en Bæjarar sóttu í sig veðrið og fyrri hálfleikurinn var frábær skemmtun. Það líka boðið upp á knattspyrnuveislu í seinni hálfleiknum þrátt fyrir að færin væru ekki eins mörg.
Bayern var sterkara liðið eftir frábæra byrjun Dortmund og átti sigurinn skilinn. Liðið hefur spilað frábærlega í vetur og sýndi styrk sinn þegar leið á leikinn.
Liðsmenn Dortmund voru að sjálfsögðu niðurbrotnir í leikslok en það er margt bendir til þess að þetta sé síðasti möguleikinn hjá félaginu í bili enda er Bayern München að kaupa alla bestu leikmennina þeirra.
Bayern München er þá búið að vinna tvo titla á tímabilinu og getur tryggt sér þrennuna með sigri í þýska bikarúrslitaleiknum.
Robben tryggði Bayern sigur í Meistaradeildinni
