Mario Götze verður ekki klár í slaginn í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á laugardaginn vegna meiðsla.
Götze fór meiddur af velli í síðari undanúrslitaleik Dortmund og Real Madrid. Hann reyndi að vera með á æfingu liðsins í gær en án árangurs.
Leikurinn hefði orðið sá síðasti hjá Dortmund áður en hann söðlar um í sumar. Eins og frægt er orðið gengur Götze í raðir Bayern München að leiktíðinni lokinni.
„Ég get ekki lýst því hve mikil vonbrigðin eru að geta ekki hjálpað liði mínu í þessum mikilvæga leik," segir Mario Götz í yfirlýsingu frá Dortmund.
„Ég hef mikla trú á liði mínu og mun að sjálfsögðu ferðast til London og styðja leikmenn utan vallar."
Leikurinn á laugardaginn hefst klukkan 18.45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport & HD. Guðmundur Benediktsson mun lýsa leiknum frá London.
Dormund verður án Götze á Wembley
