San Antonio vann tíu stiga sigur, 114-104, eftir að hafa haft yfirhöndina lengst af í leiknum. Hetja leiksins var enginn annar en Argentínumaðurinn Manu Ginobili en hann hafði verið harkalega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í seríunni til þessa.
Gregg Popovich, þjálfari San Antonio, brást við með því að setja Ginobili í byrjunarliðið sitt í fyrsta sinn á tímabilinu og Argentínumaðurinn fór á flug. Hann var með tvöfalda tvennu í leiknum - 24 stig og tíu stoðsendingar á þeim 33 mínútum sem hann spilaði. Þetta var stigahæsti leikur hans á tímabilinu til þessa.
Þess má geta að Ginobili var með samanlagt sautján stig og níu stoðsendingar í síðustu þremur leikjum San Antonio á undan.

Þess má geta að Allen spilar nú með Miami og átti mjög góðan leik í nótt - hann skoraði 21 stig og nýtti öll fjögur þriggja stiga skot sín í leiknum.
Þetta var mögulega síðasti heimaleikur stóra þríeyksins í San Antonio - þeirra Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili. Þessir þrír hafa átt mjög ríkan þátt í velgengni liðsins í gegnum tíðina og nú er það aðeins einum sigri frá meistaratitlinum. En nú fer serían aftur til Miami.
„Ég var reiður. Frammistaðan hafði valdið mér vonbrigðum,“ sagði Manu Ginobili eftir leik. „Þetta eru lokaúrslitin, staðan var 2-2, og mér fannst ég ekki hafa lagt neitt á vogarskálar míns liðs. Það var mjög pirrandi.“

LeBrom James og Dwyane Wade voru með 25 stig hvor fyrir Miami sem þarf nú að vinna á aðfaranótt miðvikudags til að þvinga fram oddaleik. Hann færi þá fram á fimmtudagskvöldið.
Miami er ríkjandi meistari en San Antonio hefur unnið titilinn alls fjórum sinnum, fyrst árið 1999. Þá var Tim Duncan í liðinu en þeir Parker og Ginobili komu síðar og tóku þátt í hinum þremur sigrunum - 2003, 2005 og 2007.