Austurríska vöðvatröllið Arnold Schwarzenegger hefur staðfest þáttöku sína í fimmtu myndinni um Tortímandann.
„Það gleður mig ákaflega að framleiðendurnir vilji fá mig í Terminator 5 og í hlutverk Tortímandans,“ sagði leikarinn í viðtali við ástralska vefsíðu, en hann kom lítið nálægt fjórðu myndinni þó honum hafi brugðið fyrir í líki tölvuteikningar.
Tökur á myndinni hefjast í janúar á næsta ári og er handritið skrifað af þeim Patrick Lussier (Drive Angry, My Bloody Valentine) og Laeta Kalogridis (Alexander, Shutter Island).
Ekki er vitað um frumsýningardag, en vissulega væri skemmtilegt að fá nýja mynd um Tortímandann á næsta ári því þá verða liðin þrjátíu ár frá frumsýningu fyrstu myndarinnar.
