Körfubolti

Dwight Howard ætlar að semja við Houston Rockets

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard
Dwight Howard Mynd/NordicPhotos/Getty
Miðherjinn öflugi Dwight Howard hefur tekið ákvörðun um hvar hann spilar á næsta tímabili í NBA-deildinni í körfubolta. Kappinn ætlar að segja skilið við Los Angeles Lakers og semja þess í stað við Houston Rockets. Howard hefur látið hin félögin sem voru á eftir honum, Lakers, Dallas, Golden State og Atlanta, vita að hann ætli að semja við Houston. Þetta kom fram í bandarískum fjölmiðlum í kvöld.

Dwight Howard spilaði aðeins í eitt tímabil með Los Angeles Lakers og náði sér aldrei fyllilega á strik við hlið Kobe Bryant. Hann var að koma til baka eftir uppskurð á baki og meiddist síðan á öxl sem háði honum einnig mikið.

Þessar fréttir eru mikið áfall fyrir Los Angeles Lakers sem fórnaði talsverðu til að fá hann í skiptum frá Orlando Magic. Kobe og Howard náðu hinsvegar aldrei saman og það vóg örugglega þungt í ákvörðunatöku hans.

Dwight Howard er 27 ára og 211 sm miðherji sem spilaði með Orlando Magic frá 2004 til 2012. Hann var þrisvar valinn besti varnarmaður ársins sem leikmaður Orlando og varð frákastahæsti leikmaður deildarinnar í fimmta sinn á síðasta tímabili.

Howard er með 18,3 stig, 12,9 fráköst og 2,2 varin skot að meðaltali á ferlinum í NBA en hann var með 17,1 stig, 12,4 fráköst og 2,4 varin skot að meðaltali með Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×