Skoðun

Ég heiti Dagur og ég er drusla.

Vísir birtir hér ræðu Dags B. Eggertssonar sem hann flutti í tilefni af Druslugöngunni, 27. júlí 2013.



Komið þið sæl! /Til hamingju með daginn!

Það er mér sannur heiður að vera hérna með ykkur.

Ég heiti Dagur og ég er drusla.

Ég vil taka ofan fyrir skipuleggjendum þessarar göngu. Hún gerir borgina okkar betri, opnari, sterkari, frjálsari, mannlegri og öruggari.

Ég vil taka ofan fyrir þeim sem hafa rofið þögnina að undanförnu María Rut Kristinsdóttir, Auður Kolbrá Birgisdóttir, Guðný Jóna Kristjánsdóttir, Eiríkur Guðbergur Stefánsson, Hilmar Örn Þorbjörnsson, Hildur Lillendahl, Sveinn Rúnar Einarsson, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Þið eruð miklu fleiri, þið eruð mörg og þið eruð sterk. Ykkar er heiðurinn, en ekki skömmin og við stöndum hundrað prósent með ykkur.

Það er mér heiður að fá að tala við ykkur í dag, en sú hugsun er nærri að ég eigi það ekki skilið.

Umbótaöflin hafa reynst sterk

Ég vil því að við horfum í kringum okkur hér í dag, með stolti, kynnum okkur fyrir næsta manni, gefum hvort öðru knús ef okkur líður þannig, en munum líka eftir fólkinu sem ruddi brautina gegn kynferðisofbeldi og skömm í samfélaginu.

Ásta Sigurðardóttir, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Telma Ásdísardóttir, Drekaslóð, Guðrún Jónsdóttir, Stígamót , Jón Sæmundur Auðarsson, Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Breiðavíkurdrengirnir. Listinn er langur. Og miklu lengri en þetta.

En umbótaöflin hafa líka reynst sterk, einsog við sýnum hér í dag. Rauðsokkur, Kvennaframboðið og Kvennalistinn, Feministafélagið, karlahópur Feministafélagsins og Karlar segja Nei við nauðgunum, SASA – samtök karla og kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, Blátt áfram, Kristínarhús, Aflið á Akureyri, Sólstafir Vestfjarða og Bleiki fíllinn í Vestmannaeyjum.

-         Já, það er hægt að fá gæsahús, jafnvel á mesta sólardegi sumarsins.

Við njótum góðs af baráttu ótölulegs fjölda karla og kvenna sem hafa stigið fram, tekið slaginn og fengið vindinn í fangið fyrir að segja sannleikann, afneita skömminni og berjast gegn ofbeldi í sínum fjölbreytilegu myndum. Og við verðum að viðurkenna að samfélagið hefur allt of oft brugðist þolendum. Ekki staðið með þeim. Á Húsavík. Á Ísafirði og í Reykjavík, og svo miklu víðar.

Við erum hér í dag til að undirstrika samstöðu okkar með þeim og undirstrika að við erum til í slaginn með þeim. Og með öllum þeim sem eru útsettir fyrir kynferðisofbeldi. Og sá slagur stendur yfir. Í dag. Hér í borginni.

Konur einsog ég og þú fluttar á milli landa sem hluti af kynlífsiðnaði

Það tók okkur mörg ár að hindra útbreiðslu nektarstaða í Reykjavík. Við vissum að þeir tengdust mansali og seldu aðgang að konum. En það var erfitt að sanna það. Oft voru þetta erlendar konur, dansarar. Þetta voru konur einsog ég og þú en þær fengu sannarlega að heyra að þær væru druslur. Þetta voru hluti þeirra milljóna kvenna sem fluttar eru milli landa sem hluti af kynlífsiðnaði sem haldið er uppi með fjármunum kúnnanna, sinnuleysi yfirvalda og þögn fjölmiðla.

Reykjavíkurborg linnti ekki látum fyrr en að fundust höfðu leiðir til að stoppa þessa staði. Baráttan fór alla leið í Hæstarétt, en vannst og stærsti áfanginn var þegar Alþingi samþykkti lög sem bannaði að veitingastaðir gerðu út á nekt starfsfólks. En það gekk ekki baráttulaust.

Og þessi barátta heldur áfram. Nú spretta upp í borginni kampavínsstaðir. Þeir selja líka aðgang að samvistum við konur. Og segjast fara að reglum. Í síðustu viku rauf Fréttablaðið þögnina um hvað þarna fer fram í grein Maríu Lilju Þrastardóttur og síðar viðtali Björk Vilhelmsdóttur, sem er ekki aðeins borgarfulltrúi heldur einnig fyrrverandi starfskona Kvennaathvarfsins, Kvennaráðgjafarinnar og margreynd úr baráttu og starfi kvennahreyfinga. Björk spurði hinna augljósu spurninga um hvort á kampavínsklúbbum þrifist vændi, hvort þar þrifist mansal og kallaði eftir rannsókn lögreglu.

Málsókn hótað

Viðbrögðin voru fyrirséð. Lögmaður kampavínsstaðanna hótar nú borgarfulltrúanum málsókn. Það skal enginn dirfast að opna munninn. Og svo er haldið  áfram og vegið að starfsheiðri blaðakonunnar. Og með hvaða rökum. Jú, María Lilja er feministi og hefur skipulagt druslugöngu í Reykjavík. Vó!

En þó þessi málatilbúnaður virki hlægilegur þá á hann sér alvarlegri hlið. Þetta er ekkert annað en grímulaus tilraun til þöggunar. En við skulum taka á móti. Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi heldur áfram. Þar hefur Reykjavíkurborg verið í fararbroddi. Það ætlum við okkur að vera áfram. Við látum málsóknir ekki hræða okkur, og sækjum baráttuandann og fordæmin í þau ótal dæmi sem við eigum í sögu þessarar borgar og sögu þeirra kjörkuðu kvenna og karla sem rutt hafa brautina. 

Kynlífsiðnaðurinn virðir engin landamæri. Þess vegna má baráttan gegn kynferðisofbeldi ekki gera það heldur. Druslugangan hófst í Kanada – og hún heldur áfram í Reykjavík. Nú í þriðja sinn, og hefur aldrei verið stærri eða öflugri.

Það er heiður að fá að vera með ykkur. Druslur allra landa sameinumst.

Ást og friður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×