Körfubolti

Tekur LeBron James við formennskunni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Bandarískir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að LeBron James sé að íhuga það að gerast formaður leikmannasamtaka NBA-deildarinnar og taka þar með við starfi Derek Fisher sem hefur barist fyrir hagsmunum kollega sinna undanfarin ár.

Derek Fisher er á sínu síðasta ári í NBA-deildinni en hann gerði á dögunum samning við Oklahoma City Thunder og lýsti því um leið yfir að hann leggi skóna á hilluna næsta sumar.

Samkvæmt heimildum Jason Whitlock hjá FoxSports.com þá tjáði LeBron James sig heilmikið um framtíðarsýn samtakanna á fundi leikmanna í tengslum við Stjörnuhelgi NBA fyrr á þessu ári.

Besti leikmaðurinn í NBA-deildinni vill nýta tækifærið nú þegar Adam Silver tekur við af David Stern sem yfirmaður NBA-deildarinnar og ná í gegn róttækum breytingum á starfsemi samtakanna.

Sömu heimildir telja þó ekki líklegt að James taki að sér starfið nú þar sem að hann vilji ekki taka að sér svona mikilvægt starf nema að geta sinnt því af fullum krafti. LeBron mun í það minnsta taka beinan þátt í því að þróa framtíðarsýn samtakanna.

Nýr formaður leikmannasamtakanna verður kosinn áður en tímabilið hefst en ársfundur samtakanna verður haldinn í Las Vegas í þessum mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×