Fótbolti

Allegri hefur áhuga á Kaka

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kaka í leik með AC Milan
Kaka í leik með AC Milan Mynd/Gettyimages
Brasilíumaðurinn Kaka var áður fyrr efstur á lista yfir menn sem andstæðingar þyrftu að stöðva. Í dag er hann hinsvegar aðeins varaskeifa í stjörnuliði Real Madrid og ætlar að finna sér nýtt lið í félagsskiptaglugganum.

Þegar Kaka var keyptur til Real  árið 2009 var um félagsskiptamet að ræða sem var svo stuttu síðar bætt þegar Real keypti Cristiano Ronaldo. Ásamt Ronaldo átti Kaka sem hafði leitt AC Milan til bæði sigurs í Serie A og Meistaradeild Evrópu að mynda óstöðvandi sóknarlínu.

Síðan þá hefur margt breyst, Kaka hefur aðeins verið skugginn af sjálfum sér hjá Real og spilaði aðeins 27 leiki á síðasta tímabili. Allt bendir til að Gareth Bale sé næstur inn um dyrnar hjá Real og því myndi spiltími Kaka eflaust vera af skornum skammti og hefur hann því beðið um sölu frá félaginu.

Fjölmiðlar voru fljótir að orða Kaka aftur við AC Milan þar sem hann í guðatölu meðal stuðningsmanna eftir árin sex hjá félaginu. Massimiliano Allegri var hóflega bjartsýnn þegar hann var spurður um Kaka en efast er um hvort AC Milan eigi einfaldlega efni á Kaka.

„Ef hann kæmi aftur yrði AC Milan strax sterkari því hann er leikmaður með mikla hæfileika. Hann myndi bæta bæði sóknarleikinn og móralinn í hópnum þrátt fyrir að hafa lítið spilað síðustu tvö ár. Ég er bjartsýnn á hvað klúbburinn mun gera á næstu dögum," sagði Allegri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×