Körfubolti

Fuglamaðurinn er enginn barnaníðingur

Andersen í leik gegn Oklahoma.
Andersen í leik gegn Oklahoma.
Eftir fimmtán mánaða rannsókn á meintu kynferðisbroti Chris "Birdman" Andersen hefur körfuboltamaðurinn verið sýknaður. Hann lenti í mjög sérstöku máli sem er í anda þess sem ruðningsleikmaðurinn Manti Te'o lenti í.

Andersen var grunaður um að hafa átt í kynferðislegu sambandi við stúlku undir lögaldri. Nú hefur komið í ljós að málið er tómt kjaftæði.

Te'o varð heimsfrægur þegar í ljós kom að hann hafði verið hafður að fífli á netinu. Hann taldi sig vera kominn í samband við stelpu sem hann kynntist í gegnum stefnumótasíðu. Voru þar illkvittnir aðilar á ferð og var farið illa með Te'o sem hefur verið skotspónn brandarakalla síðan.

Mál Andersen er að mörgu leyti líkt máli Te'o nema mun umfangsmeira. Það er eins og mál Te'o á sterum.

Í máli Andersen var kona í Kanada sem gerði sér lítið fyrir og þóttist vera Andersen á netinu. Hún hóf að ræða við konu í Kaliforníu á netinu. Síðan þóttist hún vera þessi kona er hún ræddi við hinn raunverulega Andersen.

Þrátt fyrir þennan rugling varð það úr að raunverulega konan í Kaliforníu fór til Denver er Andersen var að spila með Nuggets. Hún náði þó ekki saman við NBA-leikmanninn.

Konan í Kanada, sem lék tveimur skjöldum, var með alls konar hótanir í nafni beggja aðila. Hún var að lokum handtekin í janúar síðastliðnum.

Þetta mál fór illa með feril Andersen því skömmu eftir að lögreglan réðst inn til hans fór hann frá Nuggets. Ekkert lið vildi síðan semja við hann. Allt þar til meistarar Miami Heat sömdu við hann fyrr á þessu ári.

"Mannorði Chris var slátrað. Ef þú settir nafnið hans á google þá leit hann út fyrir að vera barnaníðingur. Dómstóll götunnar var löngu búinn að ákveða sig," sagði umbi Andersen.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×