Innlent

Slökkt á útsendingu mikilvægustu stundar fótboltasögunnar - "Leiðinleg mistök“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Gríðarleg óánægja er með að Ríkissjónvarpið hafi slökkt á beinni útsendingu frá leik Ísland og Noregs í undankeppni heimsmeistaramótsins, aðeins andartökum eftir að leiknum lauk, til þess að koma auglýsingum að.

Þeir sem heima sátu misstu því af þegar leikmenn Íslands fögnuðu sæti í umspili fyrir heimsmeistaramótið ásamt fjölmörgum íslenskum áhorfendum sem lögðu leið sína á leikinn.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, segir að mistök hafi verið gerð í útsendingarstjórn.

„Við biðjumst velvirðingar á þessum leiðinlegu mistökum,“ segir Páll sem hvetur fólk til að halda gleði sinni yfir úrslitunum.

Að sögn Páls gerðist það að of fljótt var farið úr beinu útsendingunni. Hann segir að þetta muni tæplega koma fyrir aftur, útsendingarstjórarnir muni læra af þessu.

Hallgrímur Helgaon rithöfundur segir á Facebooksíðu sinni: „Til hamingju Ísland! Glæsilegt. Og fokk RÚV fyrir að klúðra stærstu stund íslenskrar fótboltasögu, með auglýsingu frá Bakarameistaranum. Þeir tóku mómentið frá okkur!“

Þosteinn J. Vilhjálmsson hafði þetta um málið að segja á Facebook: „Stærsta stund íslenskrar knattspyrnu: Til hamingju! og ruv sendir út auglýsingarnar meðan þessu fer fram í Osló, hvaða rugl er þetta!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×